fbpx
Home / Fréttir / Breedlove hershöfðingi: Hindrunarlausir flutningar yfir Atlantshaf óhugsandi í meiriháttar hernaði

Breedlove hershöfðingi: Hindrunarlausir flutningar yfir Atlantshaf óhugsandi í meiriháttar hernaði

Philip M. Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO.
Philip M. Breedlove, fyrrv. yfirmaður herstjórnar NATO.

Rússar gætu hindrað birgða- og liðsflutninga Bandaríkjamanna til Evrópu kæmi til mikilla hernaðarátaka segir Philip Breedlove, hershöfðingi, fyrrverandi yfirmaður herstjórnar NATO, á vefsíðunni Breaking Defense mánudaginn 19. september.

Höfundur fréttarinnar segir að alkunna sé að með varnar- og útilokunar kerfum sínum, sem á ensku kallast Anti-Access/Area Denial (A2/AD) kerfi, geti Rússar með ratsjám og eldflaugum ógnað skipum og flugvélum á stórum hluta Svartahafs, Austur-Evrópu og Eystrasalts. Breedlove hafi hins vegar áhyggjur af stærri toga: Honum hugnast ekki staðan á Atlantshafi.

„Ef við eigum í hernaði við stóra þjóð í austri, haldið þið að við höfum greiða leið yfir Atlantshaf í lofti eða á legi?“ spurði Breedlove á ráðstefnu flughers Bandaríkjanna í National Harbor, skammt frá Washington DC nýlega.

Sydney J. Freedberg Jr., aðstoðarritstjóri Breaking Defense, ræddi við Breedlove ásamt fréttamanni frá rússnesku fréttastofunni RFA eftir fundinn Breedlove sagði:

„Ég held að það heyri sögunni til að unnt sé að komast hindrunarlaust yfir Atlantshaf til þess að heyja stríð á meginlandi Evrópu. Við verðum að huga að hæfni okkar til að verja getu okkar til að flytja aukinn liðsafla til Evrópu.“ Ástæðulaust væri að mikla fyrir sér getu Rússa, þeim væru skorður settar eins og öðrum en veldu þeir stað og tíma gætu þeir valdið Bandaríkjamönnum miklum erfiðleikum og nauðsynlegt væri að búa sig undir viðbrögð í slíkum tilvikum.

Freedberg segir að sviðsmynd Breedloves minni á kafbátahernaðinn í tveimur heimsstyrjöldum þegar mjög hafi verið þrengt að Bretum. Í nýrri orrustu um Atlantshaf mundi hins vegar reyna mjög á flugherinn, varnir gegn tölvu- og rafeindaárásum og jafnvel geimvopn.

Í ræðu sinni sagði Breedlove að reynt yrði að hindra alla flutninga í lofti eða á sjó frá austurströnd Bandaríkjanna. Með hliðsjón af getu Rússa til að brjótast inn í tölvukerfi og veikum tölvuvörnum í bandaríska flutningakerfinu kynni meira að segja að reynast erfitt að flytja hermenn úr stöðvum sínum innan Bandaríkjanna. Breedlove taldi að á fyrstu dögum meiriháttar átaka yrði jafnvel ekki unnt að koma Eystrasaltsþjóðunum til hjálpar vegna þess hve stutt er frá þeim til Rússlands.

Breedlove vill að Evrópuríki innan NATO auki viðbragðshraða og getu herafla síns svo að helst sé unnt að beita honum áður en til beinna vopnaðra átaka komi, hann dugi ef best lætur til að fæla Rússa frá árás eða í versta tilviki verði hann kominn á vettvang áður en Rússa loki leiðum fyrir liðsauka. Bæta verði njósnir á vegum NATO svo að eftirlitskerfi bandalagsins verði svipað því sem það var í kalda stríðinu, það er geti greint hernaðaráform Rússa áður en þeir láti til skarar skríða.

Takist Rússum að koma upp varnar- og útilokunarkerfi sínu, A2/AD-kerfinu, í Austur-Evrópu og þar með nýju járntjaldi vill Breedlove að fundinn verði leið til að brjótast í gegnum það. Það verði ekki gert af flughernum einum heldur verði herflotinn og landherinn einnig að láta sig málið varða.

Því má bæta við þessa lýsingu að föstudaginn 23. september frá klukkan 12.00 til 13.00 verður fundur á vegum Varðbergs í Safnahúsinu við Hverfisgötu þar sem flotaforinginn Clive Johnstone, yfirmaður flotastjórnar NATO, flytur erindi um NATO og mikilvægi GIUK-hliðsins, það er varnarlínu sem dregin er frá Grænlandi um Ísland til Bretlands og skiptir sköpum þegar hugað er að varnir siglingaleiðanna yfir Norður-Atlantshaf.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …