fbpx
Home / Fréttir / Bandarískur öldungaþingamaður gagnrýndur fyrir hlutabréfasölu vegna veirunnar

Bandarískur öldungaþingamaður gagnrýndur fyrir hlutabréfasölu vegna veirunnar

Richard Burr
Richard Burr

Richard Burr, öldungadeildarþingmaður repúblíkana, náinn stuðningsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, er sagður hafa selt hlutabréf að verðmæti allt að 1,6 milljónum dollara á sama tíma og hann ásamt aðrir í forustusveit flokksins fullyrtu að það yrði unnt að ráða við hættuna af kórónaveirunni.

Richard Burr er formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar og fær daglega skýrslu um stöðuna í baráttu við veiruna. Af hljóðupptöku má ráða að hann vissi um umfang áhrifanna af veirunni og seldi hlutabréf á sama tíma og hann fullyrti opinberlega að ekkert væri að óttast, stjórnvöld hefðu tök á framvindu mála. Upptakan er í höndum bandarískra fjölmiðla eins og Politico, Fox News og The New York Times.

Richard Burr flutti í ræðu í einkaklúbbi, Tar Heel, og lýsti hættunni af veirunni mörgum vikum áður en Bandaríkjastjórn lýsti yfir neyðarástandi í landinu. Ræðan var hljóðrituð.

„Eitt get ég sagt ykkur: Hún breiðir sér út af meiri hörku en nokkur önnur farsótt á síðari tímum. Hún líkist mest heimsfaraldrinum árið 1918 [spænsku veikinni],“ segir Richard Burr og bætir við:

„Hvarvetna verða menn að huga að því að þeir verða ef til vill að breyta ferðaáætlunum sínum. Þið verðið ef til vill að meta hvort þið farið til Evrópu eða getið látið fjarfundi duga.“

Politico segir að í upplýsingum sem sendar hafi verið til öldungadeildarinnar komi fram að Richard Burr sem er öldungadeildarþingmaður frá Norður-Karólínu hafi 13. febrúar selt hlutabréf fyrir 580.000 til 1,6 m. dollara í gegnum 33 verðbréfasala. Þar hafi meðal annars verið um að ræða hlut í stórri hótelkeðju.

Í vikunni fyrir söluna var Richard Burr einn af höfundum pistils á vefsíðu Fox News þar sem segir: „Bandaríkin eru betur undir það búin en nokkru sinni fyrr að takast á við farald á borð við kórónavírusinn.“

Richard Burr hefur undanfarin ár tekið þátt í smíði laga í því skyni að verja Bandaríkin gegn heimsfaraldri. Hann segir á Twitter að ásakanirnar í sinn garð séu „óvönduð blaðamennska“ og nefnir sér til varnar að fundurinn þar sem hljóðritunin var gerð hafi verið opinn.

Stjórn Donalds Trumps hefur sætt harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín við kórónahættunni í Bandaríkjunum, meðal annars fyrir að hafa gert lítið úr veirunni og fyrir að hafa gripið seint til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.

Upplýst er að fleiri öldungadeildarþingmenn en Richard Burr hafi selt hlutabréf sín á tíma sem sumir kunni að telja ámælisvert – má þar nefna Kelly Loeffler og James Inhofe úr röðum repúblíkana og demókratann Dianne Feinstein.

Richard Burr sagði föstudaginn 20. mars að hann hefði beðið siðanefnd öldungadeildarinnar að leggja mat á sölu sína á hlutabréfum vikurnar áður en markaðirnir hrundu vegna kórónaveirunnar.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …