fbpx
Home / Fréttir / Bandaríski flotinn fær tundurspilli af nýrri gerð: USS Zumwalt

Bandaríski flotinn fær tundurspilli af nýrri gerð: USS Zumwalt

USS Zumwalt
USS Zumwalt

Nýr tundurspillir USS Zumwalt bættist í herflota Bandaríkjanna laugardaginn 15. október. Skipið er hannað þannig að það sé torséð í ratsjám (stealth). Útlit skipsins er því allt annað en áður hefur sést í bandaríska flotanum. Franskt herskip hannað á þennan hátt var á dögunum í Reykjavíkurhöfn.

Skipið er dýrt, kostar fullsmíðað um 4,4 milljarða dollara um 510 milljarða ÍSK. Reyndist smíði þess dýrari en að var stefnt.

Áætlun um smíði tundurspilla af þessari gerð var kynnt á tíunda áratugnum, DD-21, og var þá gert ráð fyrir að smíðuð yrði 32 skip. Þau verða hins vegar aðeins þrjú og er USS Zumwalt fyrst þeirra.

Oft verða mikil vandkvæði við smíði fyrsta skips af nýrri gerð og sannaðist það rækilega við smíðina á USS Zumwalt.

Þegar skipið var nýlega til viðgerða í skipasmíðastöð í Norfolk í Vigriníu-ríki sagði blaðamaður staðarblaðsins Daily Press frá því á þann hátt að borgarbúar hefðu séð skip af öllum stærðum og gerðum en aldrei neitt þessu líkt. Það minnti helst á farartæki úr Star Trek undir stjórn James T. Kirks. Bandarískir fjölmiðlar hafa einnig staldrað við að skipherrann á USS Zumwalt heitir James Kirk.

Tundurspillarnir í bandaríska flotanum hafa til þessa verið af svonefndri Arleigh Burke-gerð. Þeir eru rúmlega 60 og dálítið minni en Zumwalt-gerðin. Í áhöfn Zumwalt eru aðeins 158 menn, helmingi færri en í eldri gerðinni.

USS Zumwalt ber nafn Elmos Zumwalts flotaforingja. Næstu tvö skip af sömu gerð munu bera nöfnin USS Michael Monsoor og USS Lyndon B. Johnson.

USS Zumwalt er smíðað í Bath Iron Works-skipasmiðjunni í Maine. Smíðin hófst árið 2008.

Lengd 186 m, breidd 24,5 m, djúprista 8,4 m, lestir 15.000, hraði 30 hnútar eða 55 km á klst. Heimahöfn skipsins verður í San Diego í Kaliforníu en það var formlega afhent flotanum við hátíðlega athöfn í Baltimore í Maryland, þaðan siglir skipið til San Diego og í reynsluferðir um Kyrrahaf. Heimasíða skipsins er: usszumwalt.org.

 

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …