fbpx
Home / Fréttir / Bandarískar sérsveitir æfa í Norður-Svíþjóð

Bandarískar sérsveitir æfa í Norður-Svíþjóð

Bandarískir sérsveitarmenn í Norður-Svíþjóð.
Bandarískir sérsveitarmenn í Norður-Svíþjóð.

Hópar úr aðgerða-sérsveit Bandaríkjahers tóku nýlega þátt í Vintersol 2021 heræfingunni með sænsku stórfylki í brunakulda í Norður-Svíþjóð. Áður en heræfingin hófst voru bandarísku hermennirnir þjálfaðir í vetrarhernaði með Norrbotten-hersveitinni í Arvidsjaur í norðurhluta Svíþjóðar.

Sænsk yfirvöld leggja sívaxandi áherslu á náið hernaðarlegt samstarf við Bandaríkjamenn vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa við norður landamæri Svíþjóðar og ótta við að grafið sé undan öryggi í Evrópu af Rússa hálfu. Svíar standa utan NATO en hafa gert samstarfssamning við bandalagið.

Í tilkynningu sænsku herstjórnarinnar vegna þátttöku bandarísku hermannanna er haft eftir einum þeirra.
„Margir okkar hafa mikla reynslu af eyðimörkum. Ofsakalt og ofsaheitt loftslag eiga eitt sameiginlegt, öfgarnar geta verið lífshættulegar í báðum tilvikum.“

Hermaðurinn sagði að þó væri líka mikill munur í ýmsu tilliti: „Allt tekur mun lengri tíma í kulda og snjó. Þar má nefna litla hluti eins og að það er mun erfiðara að fara úr svefnpokanum og koma sér af stað á morgnana.“

Á ensku nefnast þessar bandarísku sérsveitir Operational Detachment Alphas (ODA). Hermennirnir í þeim skiptast í litla hópa og eru þrautþjálfaðir til leynilegra aðgerða. Í æfingunni í Svíþjóð var þeim falið að láta að sér kveða langt aftan við framlínu sóknarhersins.

Svíar kynntu í október 2020 fimm ára áætlun um stóreflingu sænska hersins. Þá leggja þeir ekki aðeins áherslu á að æfa með Bandaríkjaher heldur herjum nágranna sinna á Norðurlöndunum og við Eystrasalt. Samstarfssamningur Svía við NATO er frá árinu 1994.

Svíar og Finnar hafa gert samninga um gagnkvæmar varnir og einnig þríhliða samning við Bandaríkjamenn. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi miðvikudaginn 7. apríl við finnska starfsbróður sinn, Antti Kaikkonen. Í tilkynningu bandaríska varnarmálaráðuneytisins um samtalið sagði að ráðherrarnir hefðu lýst sömu viðhorfum til hættunnar af þróun öryggismála vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa við landamæri Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …