Home / Fréttir / Bandaríkjamenn efla flugher sinn í Evrópu með háþróuðum orrustuvélum

Bandaríkjamenn efla flugher sinn í Evrópu með háþróuðum orrustuvélum

Torséðar F-22 orrustuvélar
Torséðar F-22 orrustuvélar

Í skugga átakanna í Austur-Úkraínu ætlar Bandaríkjastjórn að hafa háþróaðar orrustuþotur af gerðinni F-22 Raptor í herflugstöðvum í Evrópu – þetta eru kallaðar torséðar (stealth) vélar þar sem erfitt er að finna þær eða fylgjast með þeim í ratsjám.

„Við munum brátt hafa F-22 vélar í stöðvum í Evrópu til að verða við óskum yfirmanna hersins þar og innan ramma samstarfs okkar til stuðnings Evrópuríkjum,“ sagði Deborah Lee James, fulltrúi bandaríska flughersins, á blaðamannafundi í Washington mánudaginn 24. ágúst. Flugmenn F-22 vélanna gætu þá stundað æfingar með flugmönnum frá öðrum NATO-ríkjum.

James sagði að ákvörðunin um að hafa vélarnar í Evrópu væri hluti víðtækrar heildarstefnu til stuðnings NATO-ríkjum í austurhluta Evrópu. „Að okkar mati og evrópskra bandamanna okkar er rík ástæða til að hafa áhyggjur af hernaðarumsvifum Rússa í Úkraínu,“ sagði hún án þess að geta um fjölda F-22 vélanna sem yrðu í Evrópu eða hvar og hvenær þær yrðu þar.  F-22 vélarnar eru sérhannaðar til að takast á við óvinavélar á lofti en þær má einnig nota til árása á skotmörk á jörðu niðri.

F-22 vélarnar voru fyrst teknar í notkun árið 2005. Á þær reyndi fyrst í átökum í september 2014 þegar gripið var til fjölþjóðlegra loftárása á Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi. Bandaríski flugherinn á um 180 vélar af þessari gerð.

Heimild: Frankfurter Allgemeine Zeitung

Skoða einnig

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.

Harðar deilur Donalds Tusks og pólsku ríkisstjórnarinnar

Pólska ríkisstjórnin hefur sakað Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, um að …