fbpx
Home / Fréttir / Aukin spenna einkennir flotaæfingu17 ríkja á Eystrasalti

Aukin spenna einkennir flotaæfingu17 ríkja á Eystrasalti

Hér má skip  á leið til flotaæfinga 17 ríkja á Eystrasalti.
Hér má skip á leið til flotaæfinga 17 ríkja á Eystrasalti.

Um þessar mundir taka 49 skip, 69 flugvélar og kafbátar frá 17 löndum þátt í hinni árlegu flotaæfingu BALTOPS á Eystrasalti. Herskip frá Bandaríkjunum og Bretlandi taka þátt í æfingunni sem hefur undanfarin ár einkum snúist um hvernig virkja eigi herskip utan Eystrasalts í björgunaraðgerðum komi til stórslysa eða sjóráns. Að þessu sinni ber æfingin allt annan og hernaðarlegri blæ. Æfð er landganga og bandarískar B-52 spengjuvélar voru sendar frá stöðvum í Bandaríkjunum til að varpa djúpsprengjum undan strönd Svíþjóðar í því skyni að stöðva sókn landgönguliðs sem stefndi í átt að landinu.

Magnus Nordenman, varaforstjóri Brent Scowcroft stofnunarinnar um alþjóðaöryggismál í Washington, segir í grein um flotaæfinguna að hinn hörkulegri blær á henni endurspegli aukna spennu í öryggismálum milli Rússa og vestrænna þjóða. Hinar nýju aðstæður kalli á ný viðbrögð af hálfu Bandaríkjamanna og flotastjórna bandamanna þeirra.

Nordenman segir að eftir hrun Sovétríkjanna hafi tekist að losa Eystrasaltsríkin við rússenska hermenn og þau hafi gengið í NATO og ESB. Þá hafi Finnar og Svíar tekið að dýpka samstarf sitt við NATO og Bandaríkjamenn. Rússneski flotinn hafi að mestu haldið sig við bryggjur í St. Pétursborg og Kaliningrad. Flotastarfsemi á Eystrasalti hafi einkum lotið að leit og björgun, mikilvægi árverkni í þeim efnum hafi verið áréttað eftir að ferjan Estonía sökk árið 1994, þá hafi verið spornað við ólöglegum veiðum og losun eiturúrgangs á höfum úti.

Þetta hafi breyst fljótt eftir að til árekstra kom í Úkraínu. Eystrasaltssvæðið breyttist í þrætuepli milli NATO og Bandaríkjamanna annars vegar og Rússa hins vegar.

Bæði Svíar og Finnar hafi orðið varir við ókunna kafbáta langt inni í lögsögu sinni. Svo virðist sem í báðum tilvikum hafi för bátanna falið í sér pólitísk skilaboð skömmu eftir að nýjar ríkisstjórnir settust að völdum, fyrst í Svíþjóð síðan í Finnlandi. Þá hafi rússneskar flotaþyrlur flogið mjög nálægt finnskum rannsóknaskipum og sömuleiðis hafa rússnesk herskip siglt hættulega nærri þeim. Loks hafi rússneskt herskip farið inn á athafnasvæði innan 12 mílna frá Litháen þar sem unnið er að lagningu neðansjávar gasleiðslu til að draga úr  einokun Rússa á gassölu til Litháa. Spenna hafi einnig aukist í lofti. Rússneskar sprengiflugvélar hafi æft árásir á skotmörk í Svíþjóð og Danmörku og einnig hafi verið slökkt á ratsjársvörum í rússneskum hervélum og þeim flogið nærri farþegavélum.

Magnus Nordenman segir að Rússar eigi vissulega lögmætra hagsmuna að gæta á Eystrasalti. Þar sé mikilvæg leið milli St. Pétursborgar og Kaliningrad þá eigi Gazprom gasleiðslu á hafsbotni á þessum slóðum. Auk þess noti rússneski flotinn Eystrasaltið oft til reynslusiglinga á nýjum kafbátum og herskipum. Hvað sem þessu líði hafi hernaðarleg framganga Rússa á svæðinu tekið á sig hörkulegra yfirbragð og á svæðinu megi greinilega heyra bergmál frá Úkraínu.

Þetta hafi leitt til margskonar andsvara. Pólverjar hafi augastað á nýjum kafbátum, sömu sögu sé að segja um Svía. Tvíhliða samvinna milli ríkja hafi dýpkað, til dæmis milli Svía og Dana sem íhugi að opna landhelgi og lofthelgi sína fyrir herskipum og hervélum hvor annarra. Þá vinni Svíar og Finnar að gerð áætlana um samstarf á hættutímum.

Í lok greinar sinnar segir Magnus Nordenman:

„Í hernaðarlegu tilliti gegnir Eystrasaltið allt öðru hlutverki á þessu nýja spennuskeiði í Evrópu en áður. Í kalda stríðinu var Eystrasaltið eins og virkisgröf á norðurjaðri NATO sem skildi á milli NATO-ríkjanna Noregs og Danmerkur (og hinnar hlutlausu Svíþjóðar) annars vegar og Sovétríkjanna og hernumdu Eystrasaltsríkjanna hins vegar. Mestu skipti hernaðarlega að geta komið í veg fyrir að Sovétmenn réðust inna á Skandinavíu-skaga yfir Eystrasaltið, tækist þeim að ná þar fótfestu kynnu þeir að sækja inn í Noreg og þar að Atlantshafi. Nú á tímum er Eystrasaltið hafsvæði sem verður að lúta yfirráðum svo að unnt sé að fæla hugsanlegan óvin frá að ráðast á NATO-ríki við Eystrasalt eða til þess að unnt sé að fara um það með liðsauka til Eystrasaltsríkja á hættutímum. Þegar litið er til flotaaðgerða er ekkert einfalt mál að hafa Eystrasaltið á valdi sínu. Það er ekki víðáttumikið sem þýðir að flugvélar og herskip eru nær alltaf innan seilingar sem skotmörk land-eldflauga (eins og S-300 og S-400). Að auki er Eystrasaltið grunnt (að meðaltali 180 feta djúpt) og þar er mikið ísalt vatn sem hefur í för með sér að kafbátaleit tekur langan tíma og er erfið. Það er því kjörið athafnasvæði fyrir venjulega kafbáta og lítil herskip en erfitt fyrir stærri herskip bandaríska flotans. Í stuttu máli standa NATO og Bandaríkjamenn frammi fyrir því viðfangsefni á Eystrasalti að hindra að þeim verði gert ókleift að athafna sig þar, þeim verði einfallega bannaður aðgangur að því.

Æfingar á borð við BALTOP verða æ mikilvægari til að sýna eindreginn vilja Bandaríkjamanna og NATO til að láta að sér kveða á Norðurlanda-Eystrasaltssvæðinu þar sem spenna magnast vegna deilunnar í Úkraínu. Æfingin minnir rækilega á þá staðreynd að ekki dugar fyrir Bandaríkjamenn og NATO að skapa öryggiskennd í Evrópu með landher einum (með bandarískum og evrópskum liðsafla á landi í Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Rúmeníu og annars staðar) heldur verður einnig að bregðast á virkan hátt við aukinni ágengni Rússa með öflugum og trúverðugum flotastyrk. Þetta minnir einnig á að það er síður en svo aðeins á Kyrrahafi sem ástæða er til að hafa áhyggjur af því að flota og flugher verði meinaður aðgangur að ákveðnum svæði á sjó og í lofti.“

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …