fbpx
Home / Fréttir / Allt að 5.000 þjálfaðir vígamenn frá RÍ í Evrópu

Allt að 5.000 þjálfaðir vígamenn frá RÍ í Evrópu

Rob Wainwright, forstjóri Europol.
Rob Wainwright, forstjóri Europol.

Allt að 5.000 ESB-borgarar sem hlotið hafa þjálfun hjá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams (RÍ) í Sýrlandi og Írak hafa snúið aftur til Evrópu. Þetta sagði Rob Wainwright, forstjóri Europol, Evrópulögreglunnar, við þýska blaðið Neue Osnabrucker Zeitung laugardaginn 20. febrúar.

Í viðtalinu segir Wainwright að um þessar mundir sé hryðjuverkaógnin hin mesta sem hún hafi verið í rúman áratug í Evrópu. Hann sagði að til árásar kynni að koma einhvers staðar í Evrópu í þeim „tilgangi að valda sem mestu manntjóni á almannafæri“. Vegna hinna mörg þúsund þjálfuðu vígamanna hefði gjörbreytt staða myndast í öryggismálum Evrópu.

Í samtalinu er minnt á að margir telji tengsl á milli straums flóttamanna og fjölgunar vígamannanna í Evrópu. Það yki öryggi Evrópubúa að stöðva flóttamannastrauminn. Wainwright segir þetta ekki stutt haldgóðum rökum, ekki liggi fyrir „neinar ótvíræðar sannanir um að hryðjuverkamenn nýti sér skipulega straum flóttamanna til að laumast inn í Evrópu“.

Þessi orð yfirmanns Europol stangast á við ummæli sem stjórnmálamenn hafa látið falla. Liam Fox, fyrrverandi varnarmálaráðherra Breta, lét t.d. í janúar í ljós áhyggjur vegna þess að stjórnvöld í Evrópu hefðu enga hugmynd um hvort aðkomumenn væru „raunverulegir flóttamenn eða hælisleitendur, farandfólk í atvinnuleit eða hryðjuverkamenn sem þættust vera hluti annars hvors hópsins“.

Þá sagði Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakka, einnig í janúar að RÍ hefði orðið sér úti um óútfyllt vegabréf í Írak, Sýrlandi og Líbíu og hefði hafið útgáfu falsaðra vegabréfa. Lagði hann til að komið yrði á fót sérstakri sveit manna sem send yrði til Grikklands í því skyni að leita uppi og taka úr umferð fölsk skilríki í fórum aðkomufólks

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …