fbpx
Home / Fréttir / Afmælisferð rússnesks ísbrjóts á Norðurpólinn

Afmælisferð rússnesks ísbrjóts á Norðurpólinn

Ísbrjóturinn Arktika sem fór á pólinn 1977.
Ísbrjóturinn Arktika sem fór á pólinn 1977.

Þess er minnst í þessari viku að 40 ár eru liðin frá því að Jurí Kutsjev skipherra stjórnaði ferð rússneska ísbrjótsins Arktika á Norðurpólinn. Skipið var þar 17. ágúst 1977. Ferðarinnar minnast Rússar nú með því að senda ísbrjótinn 50 Let Pobedíj á pólinn.

Júrí Kutsjev lagði úr höfn frá Múrmansk á nýsmíðuðum kjarnorkuknúnum ísbrjóti, Arktika, 9. ágúst 1977. Innan við tvö ár voru liðin frá því að skipinu var hleypt af stokkunum og það var flaggskip nýrrar kynslóðar sovéskra ísbrjóta. Kutsjev var þaulvanur siglingum í Norður-Íshafi og eftir að honum tókst að komast með skip sitt á pólinn var honum gjarnan líkt við fyrsta geimfarann, Júrí Gagarín.

Nú 40 árum síðar sigla rússnesk fyrirmenni úr hópi landkönnuða, vísindamanna og embættismanna í kjölfar Arktika um borð í kjarnorkuknúna ísbrjótnum 50 Let Pobedíj sem fór frá Múrmansk sunnudaginn 13. ágúst og á að vera á Norðurpólnum fimmtudaginn 17. ágúst.

Tilgangur ferðarinnar er að heiðra minningu brautryðjendanna en einnig að minna á getu Rússa til að halda uppi siglingum í Norður-Íshafi og leiða ferðir eftir Norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs.

Ísmagnið er minna núna en fyrir 40 árum. Um tíma var talin hætta á að Arktika mundi festast í ísnum og yrði reka með honum. Sovétmenn áttu þá annan kjarnorkuknúinn ísbrjót, Lenín, sem hefði ekki haft burði til að brjótast í gegnum ísinn og bjarga Arktika.

Leiðangurinn um borð í 145 m löngum ísbrjótnum Arktika sem knúinn var 75 þúsund hestafla vél heppnaðist og skipið flutti rúmlega 200 manna áhöfn sína að 90° norður þar sem minningarskjöldur með skjaldarmerki Sovétríkjanna var látinn síga niður á hafsbotn. Kutsjev hafði einnig með sér fánastöng frá Georgíi Sedov, landkönnuði sem fórst í norðurskautsleiðangri árið 1914.

Kutsjev var síðar heiðraður með orðu sem kennd er við hetju sósíalísks verkalýðs og ísbrjóturinn Arktika fékk orðu Októberbyltingarinnar. Kutsjev var skipherra Arktika til ársins 1980. Skipið var tekið úr notkun árið 2008 og af rússnesku skipaskránni árið 2012. Eftir úreldinguna fór það í brotajárn.

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …