fbpx
Home / Fréttir / Afganistan: Kínverjar setja fé til höfuðs Bandaríkjamönnum

Afganistan: Kínverjar setja fé til höfuðs Bandaríkjamönnum

Bandarískir hermenn í Afganistan.
Bandarískir hermenn í Afganistan.

Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að fyrr í þessum mánuði, desember 2020, hafi Donald Trump verið gerð grein fyrir grunsemdum um að Kínverjar hefðu heitið afgönskum vígamönnum „verðlaunagreiðslum“ ef þeir dræpu bandaríska hermenn. Eldri fréttir eru um að Rússar hafi boðið Afgönum fé fyrir að ráðast á bandaríska hermenn.

Fullyrt var á bandarísku fréttavefsíðunni Axios og í CNN-sjónvarpsstöðinni miðvikudaginn 30. desember að bandaríska leyniþjónustan hefði upplýst Donald Trump um að Kínverjar hefðu borið fé á afganska vígamenn  til að þeir réðust á bandaríska hermenn.

Axios segir að forsetanum hafi 17. desember verið skýrt frá tilboði Kínverja um „verðlaunafé“ til þeirra sem myrtu bandaríska hermenn og að unnið væri að því að staðreyna fullyrðingar í þessa veru. Fyrr á árinu sættu Rússar gagnrýni í Washington fyrir að bera fé á afganska vígamenn til að þeir réðust á bandaríska hermenn í Afganistan.

Trump hefur ætíð sagt þetta „falsfréttir“. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort bandaríska leyniþjónustan hafi skýrt Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseta, frá vitneskju sinni um greiðslurnar.

Vestasti hluti Kína, Xinjiang-hérað, á stutt sameiginleg landamæri með Afganistan. Í Xinjiang búa Úígúrar, múslimskur minnihlutahópur sem talar mál af tyrkneska málaflokknum (e. Turkic-speaking). Ráðamenn í Peking vilja uppræta menningu þessa fólks og hafa komið á fót risastórum innrætingarbúðum í því skyni.

Kínverjar sitja í fjórþjóða samræmingarhópi með Afgönum, Pakistönum og Bandaríkjamönnum sem vinnur að því að binda enda á 19 ára átökin í Afganistan. Starf hópsins hefur borið lítinn árangur. Ráðamenn í Islamabad og Kabúl deila vegna gagnkvæmra hernaðarlega áhlaupa og ekkert traust er á milli Kínverja og Bandaríkjamanna.

Þegar þýska fréttastofan DW leitaði í Kabúl, höfuðborg Afganistans, álits hjá Jawid Kohistani, afgönskum sérfræðingi um öryggismál, sagði hann að Kínverjar vildu að hermenn Bandaríkjanna og á vegum NATO hyrfu frá Afganistan svo að herða mætti kínversk efnahagstök í þessum heimshluta. Kínverjar hafa mikil efnahagsleg ítök í Pakistan.

Frá því var skýrt í Washington í nóvember að 15. janúar 2021 myndu 2.000 bandarískir hermenn hverfa frá Afganistan. Af hálfu NATO hefur verið varað við hröðum brottflutningi hermanna frá Afganistan það kunni að reynast mjög dýrkeypt að hverfa á brott „of snemma og óskipulega“.

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …