fbpx
Home / Fréttir / Æðsti yfirmaður Bandaríkjahers harmar gönguför með Trump

Æðsti yfirmaður Bandaríkjahers harmar gönguför með Trump

 

Myndin er tekin mánudaginn 1. júní 2020 þegar Donald Trump forseti gekk frá Hvíta húsinu að St. John‘s biskupakirkjunni sem hafði orðið fyrir skaða daginn áður vegna uppþota og eldsvoða. Fyrir aftan Trump eru William Barr dómsmálaráðherra, Mark Esper varnarmálaráðherra og hershöfðinginn Mark Milley, formaður bandaríska herráðsins. Þá eru embættismenn út Hvíta húsinu einnig í hópnum.
Myndin er tekin mánudaginn 1. júní 2020 þegar Donald Trump forseti gekk frá Hvíta húsinu að St. John‘s biskupakirkjunni sem hafði orðið fyrir skaða daginn áður vegna uppþota og eldsvoða. Fyrir aftan Trump eru William Barr dómsmálaráðherra, Mark Esper varnarmálaráðherra og hershöfðinginn Mark Milley, formaður bandaríska herráðsins. Þá eru embættismenn út Hvíta húsinu einnig í hópnum.

Mark Milley, hershöfðingi, æðsti yfirmaður Bandaríkjahers, jók á einstæða spennu milli varnarmálaráðuneytisins og forsetaembættisins í Washington fimmtudaginn 11. júní þegar hann sagði að það hefði rangt af sér að ganga einkennisklæddur við hlið Donalds Trumps forseta fram hjá mótmælendum sem höfðu verið reknir af breiðgötunni fyrir framan Hvíta húsið svo að forsetinn gæti gengið að St. John´s kirkju til að láta taka af sér mynd.

Milley sagði að návist hans í bardagabúningi á tíma mótmæla gegn kynþáttamisrétti „gæfi þá mynd að herinn léti að sér kveða í stjórnmálum á heimavelli“.

Í ræðu sem Milley, formaður bandaríska herráðsins, flutti við brottskráningu nemenda úr National Defense University sagði hann: „Ég hefði ekki átt að vera þarna.“

Fyrir nokkrum dögum hafnaði Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hugmynd um að beita bandaríska hernum gegn mótmælendum í Bandaríkjunum. Afstaða ráðherrans varð til þess að Trump tók hann á beinið á einkafundi þeirra. Þá gerði forsetinn atlögu á Twitter gegn hershöfðingjanum Jim Mattis, fyrsta varnarmálaráðherra sínum, eftir að Mattis fordæmdi för Trumps að kirkjunni til myndatöku.

Spennan og mótmælin í Bandaríkjunum vegna blökkumannsins George Floyds í höndum lögreglu hafa leitt til alls konar vandræða í samskiptum Trumps og yfirmanna Bandaríkjahers. Fyrir nokkrum dögum létu Esper og Milley þá skoðun berast í gegnum upplýsingafulltrúa sína að þeir útilokuðu ekki viðræður við fulltrúa beggja flokka á Bandaríkjaþingi um hvort breyta ætti nöfnum á herstöðvum sem vísa til foringja í Suðurríkjasambandshernum í borgarastríðinu í Bandaríkjunum og rjúfa þannig tengsl hersins við þátt kynþáttamisréttis sem tengist sögu stríðsins.

Trump tók af skarið miðvikudaginn 10. júní og sagði að nöfnum engra bandarískra herstöðva yrði breytt og kom það ýmsum í varnarmálaráðuneytinu í opna skjöldu.

Innan landgönguliðs hersins hefur verið bannað sýna stríðsfána Suðurríkjasambandshersins opinberlega í herstöðvum og bandaríski flotinn ætlar að setja sambærilegt bann fyrir stöðvar sínar, skip og flugvélar. Trump hefur ekkert sagt um þessar ákvarðanir en þær þarf hvorki að bera undir forsetann eða þingið til samþykktar.

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …