fbpx
Home / Fréttir / Aðgerðaáætlun NATO-flota á Eyjahafi samþykkt

Aðgerðaáætlun NATO-flota á Eyjahafi samþykkt

Þýska herskipið Bonn verður í forystu NATO-flotans,
Þýska herskipið Bonn verður í forystu NATO-flotans,

 

Lokasamkomulag hefur náðst innan NATO um hvernig staðið skuli að flotaaðgerðum á Eyjahafi til að hafa hendur í hári smyglara sem lauma fólki frá Tyrklandi til grísku eyjanna. Þá hefur verið ákveðið að öllum flóttamönnum sem bjargað verður um borð í herskip undir merkjum NATO verði „skilað“ til Tyrklands.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnti aðgerðaáætlun bandalagsins á Eyjahafi að morgni fimmtudags 25. febrúar en umræður um hana höfðu staðið fram eftir nóttu. Samkomulag náðist þrátt fyrir ágreining milli Tyrkja og Grikkja um markalínur í hafinu.

„Við munum taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum til að stöðva ólöglegan flutning fólks og ólöglegar siglingar með fólk á Eyjahafi. Við gerum þetta þar sem vandinn snertir okkur öll. Við verðum að finna lausn á honum,“ sagði Stoltenberg.

Herskip undir merkjum NATO voru send til Eyjahafs í byrjun febrúar. Þau munu starfa með strandgæslum Tyrkja og Grikkja auk skipa á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Markmiðið er að uppræta skipulagða glæpastarfsemi sem tengist flutningi og smygli á flótta- og farandfólki.

Samskipti Tyrkja og Grikkja eru að jafnaði slæm á þessum slóðum og í upphafi var óljóst hvort tyrknesk og grísk skip yrðu notuð við gæslustörfin og hvort ferðir þeirra kynnu að skapa fordæmi við lausn ágreinings um markalínu mill Tyrkja og Grikkja í Eyjahafi. Niðurstaðan varð að Grikkir héldu sig á sínu óumdeilda svæði og Tyrkir á sínu hvort heldur á sjó eða í lofti.

Við björgunaraðgerðir á vegum ESB undan strönd Ítalíu hefur þeirri stefnu verið fylgt að hinum björguðu hefur verið siglt til hafnar á Ítalíu. Þeim sem verður bjargað af NATO-flotanum á Eyjahafi á leið frá Tyrklandi                                                                                                                                                                                                                              verður siglt aftur til Tyrklands.

Stoltenberg tók sérstaklega fram að hlutverk NATO-flotans væri ekki að knýja skip til að breyta um stefnu og sigla til baka til Tyrklands.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, voru hvatamenn aðgerða á vegum NATO í þeim tilgangi að hefta för flótta- og farandfólks til Evrópu.

Mannréttindasamtök og stjórnarandstaðan í Þýskalandi gagnrýna að NATO skuli blandað í flóttamannavandann. Annette Groth, þingmaður úr Vinstri flokknum, sagði áform NATO um endurskil á fólki til Tyrklands „brot á alþjóðalögum“.

Stræsta skipið í NATO flotanum er þýskt. Herskipið Bonn er 174 m langt með um 201 hermenn um borð. Flotaforinginn verður þýskur og mun stjórna fjórum skipum með áhöfnum frá Kanada, Grikklandi og Tyrklandi. NATO-aðgerðin hefst formlega 7. mars

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …